Að vera mamma
Lögum um fæðingarorlof var breytt í byrjun árs 2013 þannig að konur sem eignast börn með tæknifrjóvgun eða ættleiðingu fá nú fullt fæðingarorlof, níu mánuði, í stað sex eins og var áður. Það er gríðarlega mikil réttarbót og jákvæð þróun. Sjá nánar upplýsingar á vef Alþingis, lög nr. 143/2012.
Mæður barna sem ekki eru feðruð í þjóðskrá eiga rétt á barnalífeyri, sjá nánar upplýsingar um barnalífeyri á vef island.is.
Ein með barn
Það er mikilvægt fyrir allar einstakar mæður að eiga gott stuðningsnet fjölskyldu og vina sem geta veitt félagsskap og stuðning þegar hans er þörf. Þá er líka gott að leiða hugann að því hvort einhver nákominn karlmaður, ættingi eða vinur, sé reiðubúinn að taka þátt í lífi barnsins svo það alist líka upp með karlkyns fyrirmyndir.
Einstaka móðirin þarf líka að hugsa fyrir því sem óhugsandi er, ef hún skyldi falla frá er brýnt að vilji hennar varðandi forsjá barnsins liggi skýrt fyrir. Hægt er að ganga frá yfirlýsingu þar að lútandi hjá sýslumönnum.
Barn án föður
Börn einstakra mæðra sem getin eru með tæknifrjóvgun eiga tilvist sína að hluta til að þakka óþekktum manni, sæðisgjafa, sem gaf dýrmæta gjöf svo aðrir gætu uppfyllt drauma sína um að eignast barn. Sæðisgjafi er ýmist þekktur eða óþekktur. Þekktur gjafi gefur samþykki fyrir því að nafnleynd verði aflétt þegar barn verður 18 ára, ef barnið sjálft óskar eftir því. Óþekktur gjafi nýtur hinsvegar nafnleyndar alla tíð.
Einstakra mæðra bíður það verkefni að útskýra lífræðilegan uppruna barna sinna, fyrst og fremst fyrir börnunum sjálfum en einnig öðrum. Hver hefur sinn hátt á við þetta, sumar ræða þetta opinskátt við alla frá upphafi en aðrar kjósa kannski að halda upplýsingunum fyrir barnið og sína nánustu.
Hjá sumum vakna spurningar um hvort hugsanlega hafi fleiri börn fæðst eftir sæðisgjöf sama gjafa. Hægt er að skrá númer gjafa í sérstakar grúbbur á Facebook og komast þar í samband við aðra sem hafa fengið sæði frá dönskum sæðisbönkum eða norrænum frjósemisstofum.