Að verða mamma
Að mörgu er að hyggja áður en kona ákveður að eignast barn ein síns liðs. Ýmsar ástæður geta legið að baki þess að kona ákveður að fara þessa leið en hvernig sem því er háttað er ljóst að engin stígur þetta skref án vandlegrar íhugunar. Það þarf ekki að fjölyrða um gleðina og lífsfyllinguna sem fylgir því að eignast barn en umönnun og uppeldi barns getur tekið á – jafnvel þegar tveir foreldrar deila með sér verkefnum og ábyrgð. Það er mjög mikilvægt að hafa gott stuðningsnet fjölskyldu og vina sem geta tekið virkan þátt í lífi barnsins og nauðsynlegt að hugsa vel út í fjármálin því bæði er dýrt að standa ein straum af kostnaði við tæknifrjóvgun eða ættleiðingu – sem er auðvitað bara byrjunin, áður en kona tekur ákvörðun um að ala upp barn ein síns liðs þarf hún að vera þess fullviss að hún treysti sér til að standa ein straum af öllum kostnaði sem til fellur.
Annað sem hugleiða þarf vel er að börn einstakra mæðra alast upp án fullrar vitneskju um erfðafræðilegan uppruna sinn. Við tæknifrjóvgun með gjafasæði er hægt að velja um „þekktan“ gjafa eða „óþekktan“. Þekktur gjafi þýðir ekki að gjafinn sé nafngreindur á þessu stigi heldur að hann hafi gefið samþykki fyrir því að barn/börn sem hugsanlega verði til úr sæði hans geti fengið upplýsingar um hann um 18 ára aldur. Óþekktur gjafi verður hinsvegar nafnlaus alla tíð.
Aðstæður barna sem eru ættleidd erlendis frá geta verið ýmiskonar, í einhverjum tilvikum geta þau leitað upplýsinga um líffræðilega foreldra sína en oft er engar slíkar upplýsingar að fá.
Tæknifrjóvgun
Livio Reykjavík og frjósemisstöðin Sunna bjóða upp á tæknifrjóvganir á Íslandi og geta jafnt pör sem einhleypar konur leitað þangað. Þar er boðið upp á allar gerðir frjósemismeðferða: tæknisæðing, glasafrjóvgun eða smásjárfrjóvgun.
Sjá nánar upplýsingar um meðferðarmöguleika og kostnað:
Sunna – sunnafrjosemi.is
Livio – livio.is/livio-reykjavik
Sjá einnig upplýsingar á island.is og á vef Tilveru – samtaka um ófrjósemi.
Um áramót 2012 setti velferðarráðherra reglugerð þar sem kveðið var á um breytingar á þátttöku sjúkratrygginga vegna tæknifrjóvgunarmeðferða og hækkaði kostnaður við slíkar meðferðir þá töluvert. Sjá nánar á vef velferðarráðuneytis.
Áður en lögum um tæknifrjóvgun var breytt í þá veru að einhleypum konum var gert kleift að sækja slíka þjónustu á Íslandi leituðu margar konur erlendis í meðferð, t.d. til Danmerkur, Englands og Bandaríkjanna.
Ættleiðing
Miðlun alþjóðlegra ættleiðinga er á vegum félagsins Íslensk ættleiðing. Þangað geta allir snúið sér sem óska eftir upplýsingum um ættleiðingar erlendra barna. Nánar á isadopt.is